*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 21. febrúar 2006 16:04

Verksmiðjunúmer stemmdu ekki á reikningum

saksóknari efaðist um trúverðugleika Jóns Geralds

Ritstjórn

Vitnaleiðslur áttu sér stað yfir Jóni Gerald Sullenberger, aðalvitni í Baugsmálinu, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Var þar tekist á um eðli þeirra viðskipta sem áttu sér stað á milli verslunarfélagsins Nordica Inc., sem Jón Gerald veitti forstöðu, og eigenda Baugs með milligöngu Jóns Geralds. Þessi viðskipti, sem tekin voru fyrir í dag, lutu fyrst og fremst að bílakaupum þeim sem Jón Gerald kom að en það voru viðskipti með 6-7 bíla.

Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari í málinu, spurði Jón Gerald út í reikninga á milli hans og Baugs. Kvaðst Jón Gerald ekki hafa hagnast á þessu sjálfur. Ekki er um háar upphæðir að ræða á mörgum þessara reikninga en Jón Gerald sagði að Jón Ásgeir hefði séð um að greiða þá. Á meðan á spurningum saksóknara stóð varð þeim er á hlýddu augljóst að reikningarnir stemmdu ekki og svo virðist sem tvöfalt eða jafnvel þrefalt bókhald var við líði. Í hvers þágu það var á eftir að koma í ljós.

Á meðan saksóknari spurði Jón Gerald út í einstaka liði málsins kom fram að sunnudaginn 19. febrúar síðastliðin afhenti Ivan Motta, bílasali í Flórída, efnahagsbrotadeild lögreglunnar nýja reikninga. Aðspurður um tengsl Jóns Geralds og Motta sagði Jón Gerald að þeir hefðu eingöngu verið viðskiptafélagar. Saksóknari spurði hvernig samskiptum þeirra var háttað og kom þá fram að þeir flugu saman til landsins og gistu á sama hóteli. Spurður um hverju það sætti, sagði Jón Gerald að þetta væri að undirlagi Efnahagsbrotadeildar lögreglunnar sem hefði skipulagt ferð þeirra.

Þessir nýju reikningar hafa bent á misræmi við fyrri reikninga og stemmdu meðal annars ekki verksmiðjunúmer á bílum. Sagði saksóknari við Jón Gerald að það væri ekki mjög trúverðugt ef hann teldi eigi að síður að þetta væri vegna sama bílsins. Jón Gerald sagði svo vera.

Einnig fór saksóknari yfir samskipti Jóns Geralds og Jóns Garðars Ögmundssonar, fyrrverandi eiginmanns Kristínar Jóhannesdóttur, eins sakborninga. Jón Garðar vitnaði á föstudaginn og ljóst að margt í frásögn hans og Jóns Geralds ber ekki saman. Sagðist Jón Gerald ekki kannast við þau miklu samskipti þeirra í milli sem Jón Garðar hefði rætt um.

Saksóknari spurði um tilganginn með kæru Jóns Geralds til lögreglunnar og af hverju hann hefði staðið í því, vitandi að hann gæti kallað yfir sig refsiábyrgð. Jón Gerald sagðist hafa séð að þeir hefðu verið að misnota fyrirtækið og þegar þeir hefðu ekki staðið sig gagnvart honum hefði hann séð að þetta yrði að stoppa. Jón Gerald staðfesti að samskiptin hefðu verið orðin slæm eftir góðan vinskap frá árunum 1991 til 2001. Jón Gerald vildi ekki kannast við að annað en viðskiptaástæður hefðu orðið til vinskila. Þess má geta að í upphafi réttarhaldanna kom fram að Jón Gerald gat sleppt því að svara spurningum ef svörin gætu orðið honum til refsinga og ítrekaði dómsforsetinn, Pétur Guðgeirsson, þetta nokkrum sinnum á meðan á vitnaleiðslunum yfir Jóni Geraldi stóð. Þegar hann var spurður út í meintar hótanir gagnvart Jóni Ásgeiri Jóhannessyni vékst hann undan því að svara á áðurnefndum forsendum.