Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2008 voru afhent í hátíðardagskrá í hátíðasal Háskóla Íslands í gær. Auk þess voru einnig veittar sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskrar tungu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra veitti Herdísi Egilsdóttur kennara Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2008.

Herdís Egilsdóttir hlaut í verðlaun eina milljón króna og ritsafn Jónasar Hallgrímssonar í hátíðarbandi.

Þetta kemur fram á vef menntamálaráðuneytisins.

Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir:

„Með hverri kynslóð fæðist tungumálið upp á nýtt. Það þroskast og þróast með nýjum notendum. Tungan er um leið framandi strönd landnema sinna. Grunnskólakennarar þjóðarinnar eru leiðsögumenn í þeirri för“.

Þá fengu Landnámssetur Íslands í Borgarnesi og Útvarpsleikhúsið einnig verðlaun en í reglum menntamálaráðuneytis um verðlaun og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu segir að auk Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar sé heimilt að veita sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu.

Í ráðgjafarnefnd um verðlaun og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu sitja Kristján Árnason, Guðrún Egilson og Kristín Helga Gunnarsdóttir.

Sjá nánar á vef menntamálaráðuneytisins.