Aflaverðmæti íslenskra skipa í júnímánuði dróst saman um 7,8% frá sama mánuði í fyrra á föstu verði ársins 2002. Heildaraflinn í júní dróst saman um 11.000 tonn frá sama mánuði í fyrra eða um 5,8%. Þrátt fyrir samdrátt í verðmæti í mánuðinum hefur aflaverðmætið aukist um 0,2% miðað við sama tímabil í fyrra.

Í júní komu 35.650 tonn að landi samanborið við 42.400 tonn í fyrra og dróst aflinn því saman um 15,8%. Þorskaflinn var 14.500 tonn sem er töluverð aukning frá því í fyrra eða 18%. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni veiddust 2.900 tonn af ýsu en í fyrra veiddust 2.300 tonn og nemur aukning ýsuaflans því 600 tonnum. Úthafskarfaafli var tæplega 9.500 tonn í ár en 18.200 tonn í fyrra og er það nærri 8.800 tonna samdráttur milli ára.

Flatfiskafli var 4.200 tonn og dróst saman um 300 tonn frá júnímánuði 2003. Þar af var grálúðuaflinn eða 2.900 tonn, af skarkola var landað 470 tonnum og rúmlega 400 tonnum af þykkvalúru.

Kolmunnaafli í nýliðnum júnímánuði var 91.200 tonn en í fyrra bárust 55.000 tonn á land og nemur aukning kolmunnaaflans á milli ára 36.000 tonnum. Síldaraflinn var 34.500 tonn í ár en það er 24.000 tonnum minni afli en í júnímánuði 2003. Af loðnu bárust 7.900 tonn á land en í júnímánuði 2003 var aflinn 25.000 tonn.

Skel- og krabbadýraafli var tæplega 4.800 tonn samanborið við 4.600 tonna afla í júní 2003. Af rækju veiddust 3.100 tonn og 1.200 tonn af kúfiski. Þá var humarveiði 392 tonn en var 453 tonn í júnímánuði 2003.

Heildarafli íslenskra skipa á fyrri helmingi ársins 2004 var 1.055.000 tonn og er það 85.300 tonna minni afli en sama tímabili ársins 2003. Botnfiskafli var rúmlega 254.000 tonn sem er 4.200 tonnum meiri afli en í fyrra. Þorskaflinn var 127.300 tonn og er það aukning um 17.200 tonn. Ýsuaflinn var 42.600 tonn sem er aukning um 16.100 tonn. Ufsaaflinn var 24.500 tonn og hafði aukist um 2.800 tonn en karfaaflinn var orðinn 28.200 tonn og hafði dregist saman um 6.700 tonn. Í júnímánuði 2003 var úthafskarfaaflinn orðinn 36.800 tonn en á þessum fyrstu sex mánuðum ársins 2004 er aflinn einungis 13.100 tonn og er þetta 23.700 tonna samdráttur á milli ára.

Flatfiskaflinn var 17.300 tonn, þar af voru 9.200 tonn af grálúðu, af skarkola höfðu veiðst 2.900 tonn og 1.700 tonn af skrápflúru.

Loðnuaflinn nam 488.000 tonnum sem er tæplega 121.000 tonna samdráttur frá árinu 2003. Kolmunnaaflinn var orðinn 220.000 tonn og hafði aukist um 82.000 tonn á milli ára. Af síld höfðu borist á land 58.900 tonn en 99.200 tonn á sama tímabili í fyrra.

Skel- og krabbadýraaflinn var tæplega 16.100 tonn samanborið við nærri 23.400 tonna afla árið 2003. Hefur rækjuafli dregist saman um 3.500 tonn og kúfiskur um 2.900 tonn. Þá hefur ekki verið veiddur hörpudiskur á Breiðafirði um langa hríð.