Það sætir tíðindum að allt útlit er fyrir að á þessu ári verði í fyrsta sinn flutt út meira af lyfjum en flutt er inn þegar miðað er við verðmæti. Fyrstu sjö mánuði þessa árs voru flutt út lyf fyrir 5,4 milljarða króna en inn fyrir 4,2 milljarða. Munurinn er 1,2 milljarðar.

Útflutningur lyfja hófst skömmu eftir 1990 og upp úr 1995 var hann orðinn 15 - 20% af innflutningnum. Árið 2000 tekur útflutningurinn kipp og hefur vaxið nánast stanslaust síðan og horfur eru á að hann vaxi enn frekar á næstunni.

Í frétt á heimasíðu Samtaka iðnaðarins er bent á að lyf eru að verða með mikilvægari iðnaðarvörum sem Íslendingar flytja út. Til samanburðar má geta þess að fyrstu sjö mánuði þessa árs voru fluttar út sjávarafurðir fyrir 70,6 milljarða. Verðmæti lyfjanna er nálægt því að vera 7,6% af sjávarafurðunum.