Á morgun verða tillögur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um tímabundnar verndaraðgerðir gagnvart innflutningi á eldislaxi ræddar á fundi aðildarríkjanna í Brussel. Tillagan gerir ráð fyrir að lagður verði tollkvóti á innflutning á eldislaxi frá ríkjum utan Evrópusambandsins. Er gert ráð fyrir að Evrópusambandið taki ákvörðun um hvort gripið verði til slíkra aðgerða í kjölfar fundarins.

Samkvæmt heimildum viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins mun framkvæmdastjórnin leggja til að Noregi verði úthlutað um 186,338 tonna tollkvóta, Færeyjum verði úthlutað 25,261 tonna kvóta en önnur ríki muni deila með sér 22,401 tonna kvóta. Ísland er í þeim hópi ásamt Bandaríkjunum, Kanada og Rússlandi. Ekki er gert ráð fyrir að verndaraðgerðirnar nái til innflutnings til Evrópusambandsins frá þróunarríkjunum. Er Chile talið þeirra á meðal en Chile er einn helsti framleiðandi á eldislaxi í heiminum. Framkvæmdastjórnin getur einungis
lagt til tímabundnar aðgerðir eða í 200 daga en síðan verður að koma til kasta ráðherraráðsins og ríkir óvissa meðal aðildarríkjanna um slíkar verndaraðgerðir eins og kemur fram í Stiklum, riti viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Óvíst um áhrif hér á landi

Að undanförnu hefur orðið talsverð aukning á útflutningi á eldislaxi frá Íslandi til markaða í Evrópusambandinu. Erfitt er hins vegar að meta hvaða áhrif tillaga framkvæmdastjórnarinnar hefur á útflutning á eldislaxi héðan þar sem Ísland mun deila útflutningskvóta með öðrum ríkjum og því er óljóst hversu stór hluti kvótans rennur til Íslands. Hins vegar hafa embættismenn framkvæmdastjórnar ESB gefið í skyn að undanskilja megi stóran hluta af útflutningi frá Kanada og Bandaríkjunum frá verndaraðgerðum. Verði sú raunin er hugsanlegt að stærri hluti tollkvótans geti runnið til íslenskra útflytjenda.

Ísland hefur mótmælt hugsanlegum verndaraðgerðum

Í Stiklum kemur fram að á þessari stundu er ekki ljóst hvernig undirtektirnar verða við tillögu framkvæmdastjórnarinnar meðal
Evrópusambandsríkjanna. Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu að hugsanlegar verndaraðgerðir gegn eldislaxi samræmist hvorki EES-samningnum né samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um verndaraðgerðir. Hefur utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, m.a. rætt
þetta mál við utanríkisráðherra Írlands og Hollands en Hollendingar munu taka við formennsku í Evrópusambandinu af Írum hinn 1. júlí n.k. Ennfremur
hafa íslensk stjórnvöld átt fundi með embættismönnum framkvæmdastjórnar ESB þar sem sjónarmiðum Íslands hefur verið komið á framfæri. Þá hafa utanríkisráðuneytið og landabúnaðarráðuneytið, haft náið samráð með hagsmunaaðilum í fiskeldi hér á landi um afstöðu íslenskra
stjórnvalda. Ljóst er að innan Evrópusambandsins njóta slíkar verndaraðgerðir nokkurs fylgis vegna mikils samdráttar sem orðið hefur í fiskeldi í Skotlandi og á Írlandi.

Að sögn Grétars Más Sigurðssonar, skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, verður að bíða og sjá hvernig fundurinn fer á morgun. ?Íslensk stjórnvöld munu áfram leitast við að vinna gegn því að hugsanlegar verndaraðgerðir valdi íslensku fiskeldi búsifjum. Ítarlegt
samráð hefur verið haft um málið til að skýra afstöðu og hagsmuni Íslands í höfuðborgum aðildarríkjanna sem og við sendiráð þeirra í Reykjavík og Brussel. Almennt höfum við orðið vör við skilning á sérstöðu Íslands. Hins vegar felst vandinn í því að þessi tegund verndaraðgerða verður að beita gegn öllum aðildarríkjunum án mismununar. Erfitt er að átta sig á því hvort sú tillaga sem nú er uppi muni hafa neikvæð áhrif á útflutning á íslenskum eldislaxi til Evrópusambandsins. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur þó staðhæft að tillagan veiti Íslandi hæfilegt svigrúm til aukins útflutnings. Við höfum samt sem áður áhyggjur af þeirri stöðu sem upp er komin. Ef Ísland hefði fengið kvóta þar sem meðaltal þriggja síðustu ára hefði verið lagt til grundvallar hefði það leitt til samdráttar í greininni. Tillagan um að við deilum kvóta með öðrum ríkjum er því að sumu leyti skárri en hins vegar er ástandið óviðunandi þar sem ekki er hægt að ábyrgjast að nægilegur kvóti sé til staðar, sérstaklega í lok tímabilsins."