Lækkanir á gengi bréfa í eignasafni FL Group hafa ýtt undir lækkun á gengi hlutabréfa félagins í morgun, segja sérfræðingar.

FL Group leiðir lækkun fjármálafyrirtækja í Kauphöllinni og hefur gengi bréfanna lækkað um 4,12% nú rétt eftir hádegi. Hins vegar hefur gengið hækkað um rúmlega 8% frá áramótum.

"Bang og Olufsen og easyJet hafa verið að lækka," sagði einn aðili á fjármálamarkaði í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segir fjárfesta miða verðmæti félagsins við verðmæti eignasafns félagins og bendir á að það hafi verið að rýrna í verði.

Ekki er talið að neikvæð umfjöllun breskra fjölmiðla um efnahagsástandið á Íslandi um helgina hafi haft áhrif og ekki er vitað til að enn önnur neikvæð skýrsla sé á leiðinni. Financial Times og Sunday Times fjölluðu um íslenskt efnahagslíf um helgina í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabankans um 75 punkta í 11,25%.

Greiningaraðilar segja einnig viðskipti FL Group með eigin bréf hafi þrýst upp gengi bréfanna á föstudaginn og að fjárfestar telji bréfin ekki standa undir hækkuninni.