„Ég held að verslunarmenn geri sér alltaf betur og betur grein fyrir mikilvægi erlendra ferðamanna fyrir greinina,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.

Nýjar tölur Rannsóknarseturs verslunarinnar sýna að greiðslukortavelta erlendra ferðamanna jókst um 18% í júní. Andrés segir þetta til marks um að ferðamenn skipti greinina sífellt meira máli og að það sé greininni í hag að ferðamönnum fjölgi á Íslandi. „Það er ekki síður mikilvægt fyrir verslunina en aðrar greinar,“ segir Andrés.

Andrés segir að matvöruverslanir njóti klárlega góðs af fjölgun ferðamanna, spurður um það hvaða verslanir hagnist mest af ferðamennsku. „Það er umtalsvert sem keypt er af matvöru,“ segir hann og bætir við að minjagripaverslanir og hefbundnar ferðamannaverslanir njóti líka góðs af. Verslanir á Laugavegi og annarsstaðar í miðbænum hafi augljóslega hagnast á auknum ferðamannafjölda.

„Það eru verslanir sem eru að versla með íslensk vörumerki sem klárlega njóta góðs af þessu,“ segir Andrés. „Síðan náttúrlega hafa Kringlan og Smáralind verið mjög duglegar við að laða til sín ferðamenn með því bjóða ferðir til sín,“ segir Andrés. Símafyrirtækin hafi líka grætt mikið á fjölgun ferðamanna, þannig að áhrifin teygi sig víða.

Samtök verslunar og þjónustu eru þátttakendur í verkefninu Ísland allt árið. Það er er markaðsátak sem hefur það markmið að fjölga ferðamönnum utan háannatíma. Andrés segir að það sé hafið yfir vafa að það verkefni hafi skilað mjög góðum árangri. „Allar gistináttatölur sýna gífurlega aukningu á tímabilinu október til mars. Þannig að þetta er bara enn einn vitnisburðurinn um það að það verkefni hefur klárlega skilað góðum árangri fyrir allan bransann,“ segir Andrés.