Jóni Ásgeiri Jóhannessyni er lýst sem þreyttum og órökuðum í viðtali sem birtist við hann í Financial Times á föstudaginn. Viðtalið var tekið í "látlausri skrifstofu Baugs í London" þar sem Jón Ásgeir sat "álútur í óþægilegum stól" og "bölvaði" lagalegum hindrunum sem hafa tafið fyrir House of Fraser samningnum og "tuldraði" að á Íslandi væri ferlið mun einfaldara.

Í viðtalinu segir að samkeppnisaðilar Baugs hafi lýst yfir efasemdum um hæfni Jóns til að reka verslanir, en því svarar Jón Ásgeir: "verslunarrekstur er í blóðinu, faðir minn var verslunarrekandi í fimmtíu ár og afi minn í 45 ár, því er löng saga um verslunarrekstur í ættinni."

Jón Ásgeir viðurkennir að hæfni hans í tískugeiranum kunni að vera takmörkuð og að óhjákvæmilegt sé að eitthvað geti farið úrskeiðis á neytendamarkaði. Jón bendir á Hamleys verslanirnar í því samhengi, en sala í verslununum hríðféll í kjölfar hryðjuverkaárásana í London á síðasta ári.

Því tryggir Jón Ásgeir að aðrir eigi einnig hagsmuna að gæta í þeim samningum sem hann er aðili að. Jón Ásgeir leggur einnig upp úr því að sjá til þess að sömu aðilar haldist við stjórnvölinn og er því vænst að John Coleman muni áfram verða framkvæmdarstjóri House of Fraser, segir í greininni. Þrátt fyrir vonbrigði á borð við Hamleys, heldur Jón Ásgeir því fram að arðsemi fjárfestinga Baugs verði meira en 30% á næstunni.

Jón Ásgeir segist fullviss um að íslensku bankarnir geti staðið af sér óstöðugleika íslenska efnahagsins og bendir að endurfjármögnun þeirra banka sem Baugur á í samstarfi með hafi gengið vel. Hann segir þó að Baugur myndi þurfa að endurskoða stefnu sína ef færi að þrengja að á alþjóðalánamörkuðum, Baugur myndi þá íhuga frekari skráningar á verðbréfamarkaði. Þá segir Jón Ásgeir að fyrirtækið útiloki ekki skráningu í Bretlandi, en þar séu reglur um tilkynningarskyldu fyrirtækja vægari.

Jón Ásgeir viðurkennir að réttarhöldin yfir honum á Íslandi hafi svert ímynd sína í Bretlandi og kennir um pólitískum andstæðingum, en að hann sé nú sannfærður um að því sé nú lokið. Aðspurður segist Jón Ásgeir vera ófús til að fara út í fjárfestingar annars staðar en á Norðurlöndunum og Bretlandi, hann hafi "engan áhuga á að eyða öllum sínum tíma um borð í flugvél."