*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 28. nóvember 2019 14:39

Verslunarstjóri stal 350 þúsund úr Bónus

Á hálfs árs tímabili stal verslunarstjóri í Bónus á Akureyri um 355 þúsund krónum í 18 færslum á bilinu 5 til 40 þúsund.

Ritstjórn
Bónusverslanir eru víða um land.
Haraldur Guðjónsson

Fyrrverandi verslunarstjóri í Bónus á Akureyri hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Norðurlands eystra í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára fyrir fjárdrátt og peningaþvætti. 

Er verslunarstjórinn dæmdur fyrir að hafa í 18 skipti á tímabilinu 19. mars 2018 til 1. október sama ár dregið sér fé úr versluninni að Langholti 1 á Akureyri, samtals 357.793 krónur. Var þjófnaðurinn framkvæmdur með því að mínusfæra úr afgreiðslukössum verslunarinnar líkt og ef viðskiptavinir hefðu verið að skila vörum og samsvarandi fjárhæð tekin úr kassanum.

Upphæðirnar voru á bilinu rétt yfir 5 þúsund krónur upp í rétt undir 40 þúsund krónur, en oftast í kringum 20 þúsund krónur í hvert skipti.

Ákærði játaði háttseminni fyrir dómi og fór fram á skilorðsbundna frestun á ákvörðun refsingar eða til vara að refsing yrði ákveðin svo væg sem lög leyfði.

Við ákvörðun refsingar var litið til breytinga sem gerðar voru á peningaþvættisákvæði hegningarlaganna árið 2005. Samkvæmt breytingunni felast tvö sjálfstæð brot í framningu frumbrots og síðan sjálfsþvætti á ávinningi. Frumbrotið, fjárdráttur, tæmdi því ekki sök hvað peningaþvættið varðar. Þá var verslunarstjórinn fyrrverandi dæmdur til að greiða 151.280 króna málsvarnarþóknun verjanda síns.