Veruleg aukning hefur orðið á opinberum framlögum til þróunarmála á síðustu árum. Framlög á verðlagi hvers árs hafa nær þrefaldast á fimm árum, eða úr 583 m.kr. árið 1999 í 1.644 m.kr. árið 2004. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2005 verða framlög til þróunarmála 2.029 m.kr. Framlög til þróunarsamvinnu eru reiknuð sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF).

Viðmið alþjóðasamfélagsins, sem samþykkt var af allsherjarþingi S.þ. árið 1970, gerir ráð fyrir að ríkar þjóðir leggi 0,7% af VLF til þróunarmála. Framlag Íslands, mælt sem hlutfall af VLF, hefur hækkað úr 0,09% árið 1999 í 0,19% árið 2004. Þetta hlutfall fer upp í 0,21% á næsta ári.

Í vafriti fjármálaráðuneytisins kemur fram að erfitt er að meta árangur einstakra framlaga til marghliða þróunarsamvinnu þar sem margar stofnanir og þjóðir vinna saman. Ein leið er þó að skoða þær upplýsingar sem alþjóðastofnanir hafa um efnahags- og félagslegar framfarir í þróunarríkjunum.

Í einstökum löndum hefur náðst verulegur árangur. Úganda, sem er eitt af samstarfslöndum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, hefur náð góðum árangri í baráttunni við fátækt en samkvæmt rannsókn sem gerð var á fimm ára tímabili á tíunda áratug síðustu aldar lækkaði hlutfall fátækra í landinu um sem nemur 2,4% á ári. Er talið að um þriðjung þessa árangurs, eða 0,7%
lækkun fátæktar á ári, megi þakka aðstoð þróunarstofnana.