Reykjaneshöfn hefur látið gera fjárhagsáætlun þar sem gert er ráð fyrir því að kísilver muni rísa í Helguvík. Þetta kemur fram í ársreikningum hafnarinnar fyrir árið 2010.

„Miðað við áætlunina mun höfnin geta greitt af lánum sínum að því gefnu að þær tillögur að endurskipulagningu sem lagðar hafa verið fram gangi eftir, en óvissa ríkir þó um hvort að framkvæmdirnar verði að veruleika og jafnframt um uppbyggingarhraða á svæðinu í kring sem mun hafa bein áhrif á framtíðarhorfur Reykjaneshafnar," segir í reikningnum.

„Ef Reykjaneshöfn tekst ekki að ná samkomulagi við kröfuhafa er sú hætta fyrir hendi að þeir muni gjaldfella lán hafnarinnar. Reykjanesbær ber fulla og ótakmarkaða ábyrgð á öllum skuldum hafnarinnar. Í ljósi þess sem fram kemur hér að ofan er ljóst að veruleg óvissa ríkir um rekstrarhæfi hafnarinnar en reikningsskil hennar eru gerð miðað við að forsendan um rekstrarhæfi sé til staðar," segir í skýringum.

Eiginfjárhlutfall neikvætt um 89%

Samkvæmt rekstrarreikningi Reykjaneshafnar nam tap ársins 437,6 milljónum króna og eiginfjárhlutfall félagsins er neikvætt sem nemur 89%.

Skammtímaskuldir eru 2.051 milljónir króna í árslok og hafa hækkað um 64,3 milljónir króna á árinu. Höfnin hefur á síðustu mánuðum verið í fjárhagslegri endurskipulagningu og er gert ráðfyrir að því ferli ljúki í maí mánuði.

Kröfuhafar endurfjármagni skuldir

Í fyrirliggjandi tillögu að fjárhagslegri endurskipulagningu er gert ráð fyrir að kröfuhafar endurfjármagni núverandi skuldir og að krafa Reykjanesbæjar á höfnina í árslok 2010 verði breytt í víkjandi lán auk þess sem sveitarfélagið mun lána höfninni andvirði fasteignaskatta af starfsemi á hafnarsvæðinu næstu árin.

Þar að auki er í umræðunni að Reykjanesbær muni koma að endurskipulagningunni með frekari hætti en útfærsla á þeirri aðkomu er ekki lokið að því er fram kemur í ársreikningi. Gangi endurfjármögnunin eftir þá er gert ráð fyrir aðveltufjárhlutfall fari í 1,04 en það er einungis 0,1 samkvæmt ársreikningi.