Ólöf Nordal, alþingismaður sagði á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins sem fram fór í gær að ástæðuna fyrir því að hér á landi væri mikil þekking á bankarekstri og viðskiptalífi vera sú að hér væri gott að reka fyrirtæki, góð viðskiptamenntun og þá væri umhverfið fyrir viðskipti gott.

„En við verðum að vera með besta umhverfið – ekki næstbesta. Þannig sköpum við tækifæri,“ sagði Ólöf.

Máli sínu til stuðnings sagði hún að nauðsynlegt væri að skapa atvinnulífinu hagfellt skattaumhverfi, meðal annars með því að lækka frekar skatta á fyrirtæki.

„Þótt að það sé ekki hægt að fara í frekari skattalækkanir á þessari stundu er það eindregin skoðun mín að slíku eigum við að vinna,“ sagði Ólöf.

Atvinnuvegum gjarnan stillt upp gegn hvor öðrum

Ólöf sagði atvinnulíf hér á landi vera fjölbreytt. „Sjávarútvegurinn, iðnaðurinn, menntakerfið og bankastarfsemin, svo eitthvað sé nefnt, er rekin áfram af frumkvæði, rannsóknum, þekkingu og verkkunnáttu.“

Hún sagði helsta vandamálið vera að gjarnan væri atvinnuvegum stillt upp gegn hvor öðrum.

„Það er of algengt að einn atvinnuvegur sé gripinn á lofti og látið eins og enginn annar sé til. Núna er aftur farið að tala um útflutningsgreinarnar, í fyrra áttu allir að vinna í banka, fyrir nokkrum árum voru netfyrirtækin svarið. Þetta viðhorf gerir ekkert annað en að grafa undan atvinnulífinu í landinu,“ sagði Ólöf.

„Við þurfum skýra sýn  og hún er sú að fjölbreytt atvinnulíf skapar traustar undirstöður fyrir þjóðarbúið. Allar atvinnugreinar eru jafngóðar, þær hafa allar rétt á að vaxa og dafna í samræmi við getu sína og samkeppnishæfni. Og það má aldrei hugsa þannig að þótt ein atvinnugrein gangi vel eigi hún að leysa öll vandamál í landinu,“ sagði Ólöf í ræðu sinni.