Frávísun stefnu slitastjórnar Glitnis gegn svokallaðri klíku Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í New York gæti haft þær afleiðingar að erfiðara verður að nálgast falið fé sem hinir stefndu eru taldir eiga, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.  Dómari í New York vísaði málinu frá á þriðjudag og sagði það ekki eiga heima fyrir bandarískum dómstólum.

Slitastjórn Glitnis stefndi í maí síðastliðnum þeim Jóni Ásgeiri, Ingibjörgu Pálmadóttur, Lárusi Welding, Pálma Haraldssyni, Hannesi Smárasyni, Þorsteini M. Jónssyni, Jóni Sigurðssyni og PricewaterhouseCoopers (PwC) á Íslandi fyrir að hafa rænt Glitni innan frá í aðdraganda bankahrunsins. Hún fór fram á 2 milljarða dala, um 232 milljarða króna, í skaðabætur.

Minna svigrúm til að elta eignir

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að ástæða þess að farið var af stað með málið í New York en ekki á Íslandi væri vegna þess að slitastjórnin teldi hina stefndu eiga falið fé og eignir. Þau verðmæti væru geymd á þannig stöðum að erfitt væri að nálgast þau nema með því að höfða mál í Bandaríkjunum.

Svigrúm til að elta falda peninga úti um allan heim var aukið gríðarlega í Bandaríkjunum eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 til að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkasamtaka. Dómur frá íslenskum dómstólum er ekki talinn hafa sama alþjóðlega slagkraft og mun færri leiðir myndu opnast til að nálgast hið meinta falda fé.

-Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.

Meðal annars efnis í blaðinu á morgun er:

  • Yfir 90% af útlánum VBS fjárfestingabanka talin töpuð
  • Sex matsölustaðir selja fyrir milljarða
  • Vörugjaldsfrumvarp veldur uppnámi
  • Jólabjórinn að klárast
  • Guðmundur Snorrason endurskoðandi PwC segir í viðtali engan hafa haft „heildaryfirsýn“ yfir stöðu efnahagsmála hér á árum áður
  • Bílar: Byltingarkenndir rafbílar
  • Bækur: Vika til stefnu og baráttan harðnar á metsölulistunum
  • Golfblaðið Hola í höggi fylgir Viðskiptablaðinu á morgun