Greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir að uppgjör Exista verði mjög gott á fyrsta ársfjórðungi og leiða að því líkur í Vegvísi sínum í dag að hagnaður Exista geti orðið allt að 60 milljarðar króna.

Helstu óvissuþættir í uppgjörinu eru hlutdeild félagsins í hagnaði Sampo, áhrif af gengisstyrkingu krónunnar og meðferð tekjuskattskuldbindingar. Exista eignaðist ráðandi stöðu í Sampo í byrjun febrúar en var búið að vera að byggja upp stöðu sína í nokkra mánuði. Greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir að Exista muni bókfæra að fullu hlutdeild í hagnaði Sampo. Miðað við forsendur greiningardeildar Landsbankans má gera ráð fyrir að hagnaður Exista á fyrsta ársfjórðungi verði um 60 milljarðar króna.