Skattrannsóknarstjóra verður heimilt samkvæmt frumvarpi sem fjármálaráðherra hyggst leggja fram á Alþingi að krefjast kyrrsetningnar á eignum til tryggingar greiðslu væntanlegrar skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar í málum sem hann rannsakar ef hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun.

Fjallað var um frumvarpið á ríkisstjórnarfundi í morgun og var samþykkt að leggja það fyrir Alþingi.

Í minnisblaði fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, sem lagt var fram á fundinum í morgun segir meðal annars að fregnir á undanförnum vikum og mánuðum af milljarða fjármagnsflutningum frá Íslandi inn á bankareikninga í þekktum skattaskjólum af hálfu forsvarsmanna fjármálafyrirtækja hafi vakið upp ótal spurningar um íslensk lög og rétt.

„Þær raddir verða því sífellt háværari sem segja að auka þurfi verulega við refsiheimildir stjórnvalda, m.a. til kyrrsetningu og/eða haldlagningu eigna þeirra aðila sem taldir eru bera ábyrgð á tjóninu og verða dæmdir sem slíkir," segir í minnisblaðinu.

Því er bætt við að stjórnvöld hafi þegar brugðist við þessum kröfum með ýmsum hætti með það að markmiði að rannsaka hvað úrskeiðis hafi farið og hvort einhver brot hafi verið framin sem varði refsingu. Sett hafi verið á fót rannsóknarnefnd Alþingis, embætti sérstaks saksóknara, auk þess sem Fjármálaeftirlitið hafi verið eflt. „Þá hafa skattyfirvöld fengið auknar heimildir til upplýsingaöflunar, jafnt frá fjármálastofnunum og þeim sem skattaráðgjöf stunda," segir í minnisblaðinu.

Ákveðin hætta á að eignum sé komið undan

Hjá skattyfirvöldum sé þegar í gangi umfangsmikið starf sem miði að því að kanna hvort farið hafi verið á svig við skattalög í tengslum við hrun bankanna eða starfsemi þeirra og þá hvort tekjum hafi verið skotið undan og refsiverð brot framin.

„Ljóst er að með löngum málsmeðferðartíma skapast ákveðin hætta á að eignum sé komið undan enda er skattaðilum oftast ljóst þegar við upphaf meðferðar máls að til endurákvörðunar opinberra gjalda muni koma auk fésektar sé grunur uppi um refsiverð brot. Sú hætta er ekki síst talin til staðar nú við þær sérstöku aðstæður sem nú ríkja," segir í minnisblaðinu.

„Af þeim sökum er talið nauðsynlegt að veita skattyfirvöldum auknar heimildir til varnar því að að þeir aðilar sem málið varðar geti komið sér undan greiðslum opinberra gjalda og mögulegra fésekta vegna skattalagabrota með því að færa eignir sínar í hendur annarra. Í frumvarpi þessu er að finna tillögur þess efnis, þ.e. um kyrrsetningu eigna og aðrar tryggingarráðstafanir vegna rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins."

Í lokin segir að fjármálaráðuneytið muni leita eftir samráði við önnur ráðuneyti, s.s. dómsmálaráðuneyti og viðskiptaráðuneyti, um næstu skref varðandi frekari tryggingaráðstafanir opinberra aðila.