Eignarhaldsfélagið Vestia tapaði 413 milljónum króna á árinu 2009, en félagið var stofnað í maí á því ári. Eigið fé þess var jákvætt um 2,5 milljarða króna. Þetta kemur fram í ársreikningi Vestiu sem var skilað inn til fyrirtækjaskrár í gær.


Vestia heldur utan um allt hlutafé í Icelandic Group, Húsasmiðjunni og Plastprenti, 62% hlut í Teymi, 44,2% hlut í Atorku, 36% hlut í Öskju og 16% hlut í Stoðum. Framtakssjóður Íslands keypti Vestiu af nýja Landsbankanum í ágúst síðastliðnum á 19,5 milljarða króna.

Eignir félagsins voru metnar á 32 milljarða króna í árslok 2009 en skuldir þess á 29,5 milljarða króna. Þá hafði þegar farið fram fjárhagsleg endurskipulagning á hluta eigna félagsins. Starfsmenn voru að meðaltali sex og fengu samtals 27,4 milljónir króna greidd í laun þann hluta ársins sem Vestia starfaði. Framkvæmdastjóri Vestiu, Steinþór Baldursson, þáði 5,9 milljónir króna í laun.