Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti á fundi sínum nú í hádeginu að að stofna hlutafélag um smíði og eignarhald á nýrri Vestmannaeyjaferju. Hinu opinbera, öðrum sveitarfélögum á áhrifasvæði Landeyjahafnar, lífeyrissjóðum og áhugasömum fjárfestum verðu boðin aðkoma að félaginu. Áætlað er að smíði og hönnun ferjunnar liggi á bilinu 4 til 5 milljarðar króna.

Gert er ráð fyrir að félagið geri leigusamning við ríkið til a.m.k. tíu ára sem tryggi að þeir sem standi að félaginu fái hlutafé sitt greitt itl baka á rekstrartímanum auk lágmarksávöxtunar.

Fram kemur í tilkynningu frá bæjarstjórn Vestmannaeyja um málið að ein af ein af forsendum þess að hægt verði að taka upp siglingar í Landeyjahöfn sé að ný og grunnristari ferja verði smíðuð.

Þá segir að bæjarstjórn Vestmannaeyja telji afar mikilvægt að allt kapp verði lagt á að hratt og örugglega verði unnið að því að þróa Landeyjahöfn út úr núverandi byrjunarvanda. Gert er ráð fyrir því að forsenda félagsins sé leigusamningur við ríkið til amk. 10 ára sem tryggir að hluthafar fái hlutafé sitt greitt til baka á rekstrartímanum auk lágmarksávöxtunar.