„Við lifum líklega mestu byltingatíma sögunnar. Heimurinn breytist þessi árin með svo hröðum og róttækum hætti að hliðstæður er helst að finna í stærstu byltingum liðinna alda eins og upplýsingunni í Evrópu, iðnbyltingunni um heim allan og útþenslu evrópsku heimsveldanna til annarra álfa.“ Svona hefst bókin „Breyttur heimur“ eftir Jón Orm Halldórsson sem er sérfræðingur á sviði alþjóðastjórnmála og dósent í Háskólanum í Reykjavík. Bókin fjallar um stórtækar breytingar sem hafa orðið á skipan heimsmálanna sem lýsa sér kannski einna helst í örum vexti ríkja á borð við Kína og Indland auk vaxandi mikilvægis alþjóðavæðingar kapítalismans í stjórnmálum samtímans.

Það sem helst dró Jón Orm til að skrifa þessa bók segir hann hafa verið sterka og svolítið ágenga tilfinningu fyrir því að fólk átti sig ekki mjög vel á því hvað heimurinn hefur breyst mikið að undanförnu og um leið sú tilfinning að mikilvægustu breytingarnar fram undan séu angar af samhangandi fyrirbærum sem unnt er að skilja með dálítilli athugun. Með einföldun segir hann að hægt sé að rekja flestar breytingarnar til þrenns konar þróunar sem að hluta til eru samhangandi.

Þrenns konar þróun

„Eitt er mannfjöldasprenging síð­ustu áratuga sem hefur breytt öllum lýðfræðilegum hlutföllum í heiminum og til dæmis gert Vesturlönd að fámennu heimssvæði en Asíu eina að heimkynni talsverðs meirihluta mannkyns. Annað er gífurlega miklu meiri hagvöxtur yfir langan tíma í nokkrum tugum ríkja í Asíu en víðast annars staðar á jörðinni sem hefur breytt öllu í senn, aðstæðum í atvinnulífi heimsins, viðfangsefnum landa í efnahagsmálum og efnahagslegum hlutföllum og þar með möguleikum til að byggja upp pólitískan og hernaðarlegan styrk. Það þriðja er heimsvæðingin sem er ekki aðeins ein meginástæða hagvaxtar í Asíu heldur líka einhver djúpstæðasta bylting mannkynssögunnar. Hún hefur fært alla hluti á jörðinni í ná­ vígi við alla menn og um leið tengt alla hluti saman með alveg nýjum hætti,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .