VEX ehf. hefur lokið 10 milljarða fjármögnun á framtakssjóði sem ber heitið VEX I. Umframeftirspurn var frá fjárfestum sem eru stærri stofnanafjárfestar og einkafjárfestar. Þetta kemur fram í tilkynningu.

VEX I mun fjárfesta í óskráðum fyrirtækjum, sem eru að sækja nýtt hlutafé til vaxtar, auk stöndugra fyrirtækja þar sem tækifæri eru til umbóta og aukinnar virðissköpunar. Áhersla er lögð á að vinna með stjórnendum að uppbyggingu félaga til langs tíma með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Horft er til þess að fjárfesta í 4-8 fyrirtækjum og að eignarhaldstími sjóðsins í hverju félagi verði á bilinu 3-7 ár.

Benedikt Ólafsson og Trausti Jónsson munu leiða fjárfestingar sjóðsins. Þeir hafa áður tekið þátt í að byggja upp eignastýringu sem hefur verið leiðandi í óskráðum fjárfestingum á Íslandi. Þeir Benedikt og Trausti hafa þannig komið að fjárfestingum fyrir yfir 50 milljarða á síðastliðnum 10 árum með góðum árangri.

„Við höfum í gegnum tíðina átt gott samstarf með flestum þeim fjárfestum sem nú koma að sjóðnum. Á grundvelli þess samstarfs stofnum við VEX I, þar sem markmiðið er að koma fjármagni í vinnu með ábyrgum og árangursríkum hætti," segir Benedikt Ólafsson, eigandi hjá Vex, í tilkynningunni.

„Við teljum að það séu mikið af áhugaverðum tækifærum framundan innan okkar fjárfestingarmengis. Við sjáum sérstaklega tækifæri og vöntun í að fjármagna vegferð vaxtarfyrirtækja t.d. þegar kemur vöruþróun, bættum innviðum, skölun á rekstri og sókn á ný markaðssvæði," segir Trausti Jónsson, eigandi hjá Vex, í tilkynningunni.

VEX ehf. er rekstraraðili sérhæfðra sjóða með áherslu á óskráðar fjárfestingar. Hluthafar VEX eru Benedikt Ólafsson, Trausti Jónsson, Bjarni Ármannsson og Vátryggingafélag Íslands.