Gjaldþrot bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers hefur kostað um 300 milljarða Bandaríkjadala utan Bandaríkjanna.

Þetta kemur fram í skýrslu þýska fjármálaeftirlitsins en frá þessu er greint á fréttavef Reuters.

„Við erum enn að sleikja sárin af Lehman Brothers,“ hefur Reuters eftir Jochen Sanio, forstjóra þýska fjármálaeftirlitsins en hann lét þessi orð falla á alþjóðlegri bankaráðstefnu í Þýskalandi.

„Skaðann utan Bandaríkjanna er hægt að meta á um 300 milljarða dali,“ sagði Sanio.

Eins og kunnugt er varð Lehman Brothers gjaldþrota þann 15. september síðastliðinn en áður höfðu bandarísk yfirvöld bjargað bönkum á borð við Bear Stearns og tryggingafélaginu AIG.