Viðar Þorkelsson hefur verið ráðinn forstjóri Landic Property í stað Skarphéðins Berg Steinarssonar og tekur strax til starfa.

Eins og fram kom í morgun hefur Skarphéðinn Berg látið af störfum hjá félaginu.

Viðar Þorkelsson var framkvæmdastjóri fjármálasviðs Stoða (áður FL Group) frá febrúar 2008. Á árunum 2006 til 2008 gegndi Viðar stöðu framkvæmdastjóra fjármála- og tæknisviðs 365 hf.

Viðar starfaði á árunum 2000-2005 sem framkvæmdastjóri fjármála- og rekstarsviðs og síðar sem aðstoðarforstjóri Vodafone og fyrirrennara þess félags. Á árunum 1988-2000 starfaði Viðar hjá Landsbanka Íslands, m.a. sem svæðisstjóri og útibússtjóri.

Viðar lauk prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1988 og MBA gráðu frá Peter F. Drucker Management Center í Bandaríkjunum 1993.

„Það er ánægjulegt að fá tækifæri að taka við stjórn Landic Property, sem er stórt félag með vandað eignasafn og öflugan hóp starfsmanna. Þetta er í senn spennandi og krefjandi verkefni,” segir Viðar Þorkelsson, nýr forstjóri Landic Property í tilkynningu frá félaginu.