Hjúkrunardeild ásamt aðalinngangi nýrrar viðbyggingar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) á Selfossi verður vígð á morgun og tekin í notkun á föstudag, en verkið er á vegum heilbrigðisráðuneytis. Umsjón með framkvæmdunum hefur haft Framkvæmdasýsla ríkisins. Guðmundur Pálsson, verkefnisstjóri hjá FSR, segir að heildarkostnaður við verkefnið nemi um 1,5 milljörðum króna.

Viðbyggingin er alls þrjár hæðir og kjallari. Á 1. hæð verður aðalinngangur og heilsugæslustöð, á 2. hæð og 3. hæð verða hjúkrunardeildir fyrir aldraða og í kjallara verður endurhæfing, funda- og kennsluaðstaða, kapella, tölvurými og geymslur. Stærð byggingarinnar er rúmlega 5.200 fermetrar og er hver hæð um 1.300 fermetrar.