„Fullyrðingar um að njósnað hafi verið um viðskiptavini Nova er ekki hægt að setja fram á þessari stundu,“ segir Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, í tilkynningu.

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr í dag að tæplega hundrað notendaauðkenni viðskiptavina NOVA kæmu fyrir í njósnaskjölum breskra og bandarískra njósnara, þegar þeir gerðu tilraunir árin 2010 og 2011 til að kanna hvaða aðferðir væru farsælastar til njósna á almenningi.

Í tilkynningunni frá Nova segir að símkort Nova séu frá Bluefish og Oberthur, en Nova hafi ekki átt viðskipti við símkortaframleiðandann Gemalto. „Nova hefur óskað eftir upplýsingum frá Bluefish hvort þeir hafi átt í samstarfi við Gmalto á þessum tíma.“

„Símafyrirtæki eru merkt með landsnúmeri, kallast MCC númer og stendur fyrir Mobile Country Code og með kerfisnúmeri, kallast MNC og stendur fyrir Mobile Network Code. Í gögnunum á netinu koma þessi númer fram og við Nova stendur 224113 en Nova á Íslandi er með 27411, mögulega er verið að rugla saman fyrirtækjum en við getum ekki fullyrt það,“ segir jafnframt í tilkynningu félagsins.

Þá kemur fram að Póst- og fjarskiptastofnun sé með málið til skoðunar og muni rannsaka málið. Fullyrðingar um að njósnað hafi verið um viðskiptavini Nova sé ekki hægt að setja fram á þessari stundu.

„Við tökum þetta gríðarlega alvarlega og munum aðstoða eins og hægt er við að komast að hinu rétta í málinu,“ segir Liv Bergþórsdóttir.