Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í nótt um viðskiptabann á Líbýu og frystingu á öllum eignum Gaddafi Líbýuleiðtoga í Bandaríkjunum.

Líbýa er nú á barmi allsherjar borgarstyrjaldar en stjórn Gaddafi er einangruð í kringum höfuðborgina Tripoli. Gaddafi hefur farið mikinn í opinberum ávörpum og sagt alla uppreisnarmenn í landinu vera á eiturlyfjum og þar að auki sendiboða Osama Bin Laden, forsprakka Al-Qaida hryðjuverkasamtakanna.

Samkvæmt fréttum BBC og The New York Times, eru alþjóðastofnanir, m.a. NATO og Sameinuðu Þjóðirnar (SÞ), nú í viðbragðsstöðu, tilbúnar að senda inn alþjóðlegt herlið til þess að stöðva blóðbaðið í landinu.