Viðskipti voru stöðvuð í Kauphöllinni í New York skömmu eftir opnun markaða eftir að S&P 500 vísitalan hafði lækkað um 7% í fyrstu viðskiptum. Viðskipti eru stöðvuð í 15 mínútur þegar vísitalan fellur um 7% innan dags en þetta er í annað sinn í vikunni sem stöðvun á sér stað.

Eftir svartan mánudag fyrr í vikunni stefnir allt í að dagurinn í dag verði svartur fimmtudagur en nöfnin vísa bæði í tvö af verstu dögum í sögu bandarísks hlutabréfamarkaðar.

Eftir að opnað var fyrir viðskipti á nýjan leik lækkaði S&P 500 vísitalan enn meira en hefur nú örlítið rétt úr kútnum en þegar þetta er skrifað nemur lækkun dagsins 6,9%.

Vísitalan stendur nú í 2.552 stigum og hefur lækkað um rúmlega 24% frá því hún náði síðasta hámarki sínu þann 19. febrúar síðastliðinn.