Viðskipti voru stöðvuð í Kauphöllinni í New York nú fyrir skömmu eftir að S&P 500 vísitalan hafði lækkað um 7% í fyrstu viðskiptum. Viðskipti eru stöðvuð í 15 mínútur þegar vísitalan fellur um 7% innan dags en þetta er í fyrsta skipti frá hruni sem þetta gerist.

Dagurinn í dag hefur nú þegar verið kallaður svarti mánudagurinn en það nafn er vísun í 19. október 1987 þegar hlutabréfaverð féll um 20% á einum degi.

Lækkanirnar koma til af áframhaldandi útbreiðslu kórónuveirunnar en þá hefur ríflega 20% lækkun á olíuverði einnig hrellt fjárfesta um allan heim.

Þegar þetta er skrifað hefur markaðurinn þó eilítið rétt úr kútnum eftir 15 mínútna viðskiptahlé og nemur lækkun dagsins 5,8% og stendur S&P 500 vísitalan í 2.800 stigum og hefur ekki verið lægri frá því í lok maí á síðasta ári.