*

laugardagur, 8. maí 2021
Innlent 15. október 2020 08:04

Viðurkenning fyrir starfsfólk Marel

Marel trónir á toppi lista Viðskiptablaðsins og Keldunnar yfir fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri.

Ritstjórn
Linda Jónsdóttir er fjármálastjóri Marel.
Haraldur Guðjónsson

Síðasta rekstrarár Marel var árangursríkt. Velta félagsins nam tæplega 1,3 milljarði evra og jókst um 7% milli ára. Félagið hagnaðist um rúmar 110 milljónir evra á árinu.

Tvískráning hlutabréfa Marel í kauphöllinni í Amsterdam í júní 2019 heppnaðist vel og náði félagið öllum lykilmarkmiðum skráningarinnar, sem átti að styðja við fyrirætlanir félagsins um langtímavöxt og virðisaukningu. Meðal markmiða var aukið aðgengi að breiðari hópi alþjóðlegra fjárfesta, aukinn sýnileiki félagsins og aukinn seljanleiki bréfanna á alþjóðavísu. Á aðalfundi Marel 2018 voru alþjóðlegir fjárfestar um 3% en eftir tvískráningu stækkaði hópurinn í 30%.

Gildi Marel sýnd í verki

Vaxtar- og afkomuáform Marel til 2026 standa þrátt fyrir heimsfaraldur kórónuveirunnar. Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri Marel, segir félaginu hafa vegnað vel á þessum krefjandi tímum. Linda er bjartsýn og einblínir á tækifærin sem felast í áskorununum. Að hennar sögn hefur fjárfesting Marel í þjónustuneti um heim allan og áhersla þeirra á nálægð við viðskiptavini reynst vel í heimsfaraldrinum.

Faraldurinn hefur haft mikil áhrif á þjónustulausnir fyrirtækisins og aukið stafræn samskipti. Linda sér spennandi tækifæri í hraðri stafrænni þróun í faraldrinum. „Í faraldrinum felast tækifæri til þess að bjóða upp á lausnir sem eru betri fyrir samfélagið, þær draga til að mynda úr ferðalögum og orkunotkun, sem er í samræmi við sýn Marel að hafa sjálfbærni að leiðarljósi í öllu sem við gerum."

Linda telur framtíðarsýn Marel hafa stuðlað að framúrskarandi árangri fyrirtækisins og það að Marel sé efst á lista yfir fyrirmyndarfyrirtæki sé viðurkenning fyrir allt starfsfólk Marel. Fyrirtækið ætlar sér að umbreyta matvælaframleiðslu í átt til sjálfbærni og hagkvæmni. Nýsköpun er miðpunkturinn í allri starfsemi félagsins. „Marel fjárfestir um 6% tekna í nýsköpun. Á síðustu þremur árum höfum við skapað um 50 nýjar lausnir sem hjálpa viðskiptavinum okkar að auka skilvirkni, sjálfbærni og rekjanleika."

Gildi Marel eru metnaður, samstaða og nýsköpun. Linda lýsir því hvernig starfsfólk Marel hefur sýnt gildi fyrirtækisins í verki, ekki síst með mikilli samstöðu á krefjandi tímum. „Á síðustu mánuðum hefur starfsfólk okkar staðið sig frábærlega og á gríðarlega mikið hrós skilið. Þau hafa sýnt mikla þrautseigju, verið úrræðagóð og hugsað út fyrir rammann til að takast á við nýjar áskoranir á hverjum degi. Við hefðum aldrei komist í gegnum síðustu mánuði nema vegna þess hve samstaða er innvikluð í dagleg störf allra."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun og unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.