Rekstur Reykjavíkurborgar gekk mun verr en fjárhagsáætlanir höfðu gert ráð fyrir, að því er kemur fram í hálfsársuppgjöri borgarinnar. Þannig var rúmlega þriggja milljarða króna halli á rekstri A-hluta Reykjavíkurborgar, sem er sá hluti borgarsjóðs sem sér um grunnrekstur og stærstan hluta opinberrar þjónustu. Það er næstum 1,2 milljörðum króna lakari árangur en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Fjármálaskrifstofa borgarinnar hefur kallað eftir viðbrögðum við alvarlegri stöðu á fjármálum borgarinnar.

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, gagnrýnir meirihlutann í borginni harðlega í færslu á Facebook síðu sinni, þar sem hún segir að meirihlutinn fái „algjöra falleinkunn í fjármálum borgarinnar undir stjórn Dags og áður Gnarrsins."

Í framhaldinu segir Vigdís að meirihlutinn hafi ákveðið að draga athygli fjölmiðla frá alvarlegri stöðu borgarsjóðs með því að „ræsa sirkúsinn út," en tilkynnt var um að götunni Bratthöfða yrði breytt í Svarthöfða.