Ferðaskrifstofan Planbo Resort í Noregi auglýsir nú ofurtilboð á ferðum til Kanaríeyja á næsta ári. Eru 100 vikur í boði á Gran Canaria á næsta ári fyrir aðeins 1 norska krónu, eða um 17 íslenskar krónur.

Greint er frá þessu í norska blaðinu VG sem segir margvísleg önnur kostaboð líka í gangi. Bent er á að hollenska flugfélagið transavia.com hafi sett í loftið fyrr í vikunni tilboð á 10.000 ókeypis flugmiðum.

VG vitnar í samtal við Knut Erik Berg, fjölmiðlafulltrúa Planbo Resort. Segir hann að þegar séu margvísleg flugtilboð í gangi og nú sé tími til kominn að bjóða slík tilboð á gistingu. Fyrirtækið hafi á boðstólum yfir 10.000 gistimöguleika í Noregi og á Gran Canaria sem leigðir hafa verið út í gegnum aðra ferðaþjónustuaðila. Nú rói Planbo á ný mið með því að bjóða sjálft ofurtilboð á netinu.

Segir Knut Erik að tilgangurinn sé að reyna að ná jafnari viðskiptunum yfir allt árið. Lítill bókunarkostnaður í gegnum netið gefi möguleika á að bjóða betri kjör. Frá og með morgundeginum verða í boði 1.016 gistivikunætur á verði frá 495 til 1.995 norskar krónur. Þá verða í boði 100 gistivikunætur á árinu 2009 fyrir aðeins 1 norska krónu. Fyrir þetta verð fæst íbúð með svefnplássi fyrir fjóra. Tekið er fram að aðeins sé í boði ein íbúð á mann.

Væntanlega þurfa menn því að hafa hraðar hendur til að ná þessu kostaboði, en vefsíða fyrirtækisins er www.planbo.no