Sparisjóðurinn í Keflavík.
Sparisjóðurinn í Keflavík.
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslunnar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að sýslan hafi gjarnan viljað sjá sparisjóðina sameinaða í einn, einnig þegar Spkef var inni í myndinni. Skýrsla Bankasýslunnar um starfsemi síðasta árs kom út í gær.„Þá hefði sameinaður efnahagur hljóðað upp á 120 til 140 milljarða. Nú er sameiginleg stærð um 60 milljarðar króna. Okkar tillaga var að sameina þá alla, en sú leið hlaut ekki hljómgrunn,“ segir Elín. Starfshópur um framtíð sparisjóðakerfisins valdi að stefna að sameiningu í 3-5 landshlutabundna sparisjóði. Bankasýslan tók við stofnfé ríkisins í fimm sparisjóðum í lok árs 2010 og byrjun árs 2011. Hluturinn í sjóðunum nemur á bilinu 49,5-91%.

Heildareignir sparisjóðanna tíu eru á bilinu 1,9 til 14,4 milljarðar króna. Bankasýslan bendir á að reglur um áhættuskuldbindingar, sem takmarka fjárhæð lána til eins aðila eða tengdra aðila við 25% af eiginfjárgrunni, takmarki mjög stuðning sparisjóða við fyrirtæki á starfssvæði þeirra. Þannig getur sjóður með 5 milljarða efnahag og 16% eiginfjárhlutfall einungis lánað að hámarki 200 milljónir til eins aðila. Af þessari ástæðu er slíkur sjóður of lítill til að geta veitt flestum meðalstórum fyrirtækjum lánafyrirgreiðslu. Hjá sjö af tíu íslenskum sparisjóðum eru heildareignir innan við 5,3 milljarðar.

Tæplega 30% af útlánasafniþeirra sparisjóða sem Bankasýslan á hlut í hefur verið afskrifaður eða færður í varúð frá árinu 2008 til 2010. Til samanburðar var niðurfærsla eða afsláttur af útlánasafni viðskiptabankanna við yfirfærslu úr gömlu bönkunum um 47% hjá Landsbankanum, 47,5% hjá Íslandsbanka og 69% í tilfelli Arion banka.

Ítarlega er fjallað um skýrslu Bankasýslu ríkisins í úttekt í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.