Í morgun hittu þau Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir,11 ára, og Helgi Valentín Arnarson, 10 ára, ríkisstjórnina í stjórnarráðinu og færðu þeim endurskinsmerki.

Til hvers? Jú þau telja að með þessu muni þjóðin sjá betur hvað ríkisstjórnin er að gera en auk þess vilja þau Helgi og Hólmfríður tryggja öryggi ríkisstjórnarinnar sem best þegar fulltrúar hennar eru á gangi úti í myrkrinu.

Frá þessu er greint á vef Umferðarstofu.

Þar kemur fram að við athugun á slysum þar sem gangandi vegfarendur eða hjólandi koma við sögu kemur í ljós að koma hefði mátt í veg fyrir mörg þessara slysa ef viðkomandi hefði notað endurskinsmerki.

„Umferðarstofa vill hvetja alla gangandi og hjólandi vegfarendur til að nota endurskin“ segir á vef stofnunarinnar.

„Það er mikilvægt að foreldrar sjái til þess að börnin séu með endurskin, að þau séu rétt notuð og að foreldrarnir sjálfir sýni gott fordæmi með því að nota þau einnig.“

Á mörgum heimilum eru til ónotuð endurskinsmerki í skúffum og skápum og því getur dugað að leita þau uppi og taka þau í notkun. Auk þess er hægt að fá þau víða í stórmörkuðum, lyfjaverslunum og hjá Vinnustofunni Ás.

Umferðarstofa gerði tilraun á því hve miklu fyrr barn sem er með endurskinsmerki sést en barn sem hefur ekkert endurskin. Í ljós kom að barnið sést u.þ.b 5 sinnum fyrr þegar það er með endurskin.