*

fimmtudagur, 24. september 2020
Innlent 5. júlí 2019 14:57

Vilja ábendingar almennings um kísilver

Samráðsgátt opnuð vegna endurbóta á kísilverksmiðju Stakksberg í Helguvík, fyrrum United Silicon, að fyrirmynd ríkisins.

Ritstjórn
Kísilverið sem United Silicon reisti í Helguvík í Reykjanesbæ er nú í eigu Arion banka í gegnum félagið Stakksberg.
Haraldur Guðjónsson

Stakksberg, umsýslufélag Arion banka um eignir þrotabús United Silicon, hefur opnað sérstaka samráðsgátt vegna vinnslu frummatsskýrslu umhverfismats kísilverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík, en samráðsgáttin sækir fyrirmynd sína í samráðsgátt stjórnvalda.

Öllum er frjálst að senda inn athugasemd eða ábendingu en til þess þarf að skrá sig inn með innskráningarkerfi island.is, Íslykli eða rafrænum skilríkjum. Líkt og í samráðsgátt stjórnvalda eru athugasemdir í samráðsgátt Stakksbergs birtar opinberlega og undir nafni.

Þrjú mál hafa nú þegar verið birt í samráðsgátt Stakksbergs, það er um samfélagsleg áhrif, ásýnd og hljóðvist. Fleiri atriði matsins verða birt eftir því sem vinnu við frummatsskýrslu vindur fram.

Stakksberg á kísilverksmiðjuna í Helguvík og vinnur að úrbótum á verksmiðjunni til að gera hana fullbúna til framleiðslu, en enginn rekstur hefur verið í henni frá því í september 2017 þegar Umhverfisstofnun stöðvaði hann.

Félagið áætlar að fjárfesta fyrir um 4,5 milljarða króna í úrbótum á verksmiðjunni til að gera verksmiðjuna fullbúna til framleiðslu. Úrbæturnar miða að því að tryggja stöðugan rekstur verksmiðjunnar og vinna gegn lyktar- og loftmengun.

Fyrsta samráðsgáttin á vegum framkvæmdaaðila

Með samráðsgáttinni vill Stakksberg stuðla að auknu samráði við almenning, umfram það sem lög og reglur gera ráð fyrir, og er þetta í fyrsta sinn sem framkvæmdaraðili stendur fyrir samráði með þessum hætti á meðan á vinnslu frummatsskýrslu stendur.

Með auknu samráði vonast Stakksberg til þess að fram komi athugasemdir frá almenningi sem stuðli að betri og vandaðri frummatsskýrslu. Samráðsgáttin er aðgengileg á slóðinni  og einnig frá heimsíðu Stakksbergs. Að samráðstímabili loknu verður gerð grein fyrir úrvinnslu athugasemda með samantekt á síðu hvers máls.

Tekið verður tillit til athugasemda við vinnslu frummatsskýrslu eins og við á og auk þess mun samantekt fylgja sem viðauki við skýrsluna. Þegar frummatsskýrslu hefur verið skilað til Skipulagsstofnunar verða mál á samráðsgátt Stakksbergs, ásamt athugasemdum og öðru innsendu efni, tekin úr birtingu.

Umhverfismat vegna endurbóta á kísilverksmiðju í Helguvík

Stakksberg vinnur að endurbótum á kísilverksmiðju félagsins í Helguvík og hluti af því er endurskoðun á umhverfismati. 

Vinna við nýtt umhverfismat hófst þann 25. júní 2018 þegar Stakksberg auglýsti drög að tillögu að matsáætlun vegna nýs umhverfismats. Tillaga að matsáætlun var birt þann 20. nóvember 2018 og var haldinn íbúafundur í Hljómahöll í Reykjanesbæ til að kynna málið þann 21. nóvember.

Skipulagsstofnun auglýsti málið og kallaði eftir athugasemdum og lauk athugasemdafresti þann 15. desember 2018. Skipulagsstofnun gaf út ákvörðun um matsáætlun þann 12. apríl 2019.

Nú stendur yfir vinna við gerð frummatsskýrslu í samræmi við ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun og er áætlað að henni verði skilað til Skipulagsstofnunar í september 2019. Stofnunin mun í kjölfarið kalla eftir athugasemdum og umsögnum við hana í samræmi við lögbundið ferli.