Landssamband kúabænda vill að horfið verði frá kvótakerfi í mjólkurframleiðslu og að greitt verði sama verð fyrir alla innlagða mjólk. Þannig verði opinberri verðlagningu til bænda hætt en áfram verði opinber verðlagning á vinnslu- eða heildsölustigi. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

„Kvótakerfið var fyrst og fremst sett upp til að halda aftur af framleiðslu, til að halda utan um verðlagningu til bænda. Ef það verður lagt af er ekki hægt að festa verðið. Þetta fylgist að,“ segir Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda, í samtali við Morgunblaðið.

„Hugsunin er sú að að fara frá þessu fyrirkomulagi yfir í það að markaðsaðstæður stýri verðlaginu meira. Við eigum eftir að útfæra það frekar í viðræðum hvernig það kemur út gagnvart bændum. Það þarf að vera til staðar ákveðið öryggisnet fyrir bændur þannig að þeir lendi ekki í verðhruni.“