Flokkur fólksins hefur lagt fram frumvarp til breytinga á þrennum lögum sem fela í sér bann við okri. Ólíklegt verður að teljast að frumvarpið muni verða að lögum á komandi þingstubbi.

Frumvarpið felur í sér tvenns konar breytingar á lögum um almannavarnir. Annars vegar verður ríkislögreglustjóra veitt heimild til þess að ákveða hámarkssöluverð eða -álagningu á tilteknar vörur eða vöruflokka. Brjóti einstaklingur eða lögaðili gegn ákvæðinu varði það sekt allt að tíu milljónum króna.

„Allt frá upphafi heimsfaraldurs kórónuveiru hafa borist fregnir af því að bæði innan og utan lands hafi verð á sóttvarnavörum, grímum, sótthreinsispritti og fleiru hækkað verulega og að óprúttnir aðilar hafi hamstrað til sín slíkar vörur á fyrri stigum faraldursins í gróðavon. […] Það yrði með öllu ótækt ef, svo dæmi sé tekið, efnaminna fólk gæti ekki fylgt fyrirmælum stjórnvalda um sóttvarnaaðgerðir vegna þess að sóttvarnabúnaður hefði hækkað verulega í verði á skömmum tíma,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Einnig er þar að finna breytingu á lögum um sóttvarnir sem felur í sér að „[ö]llum skuli tryggður aðgangur að sóttvarnabúnaði sem nauðsynlegur er“. Að endingu er þar að finna tillögu að breytingu á hegningarlögum þess efnis að heimilt verði að dæma menn til refsingar fyrir að meina neytanda aðgangi að nauðsynjavörum eða sóttvarnavörum með því að hækka vörðuverð án málefnalegra ástæðna. Varðar allt að þriggja mánaða fangelsi við háttseminni í tilfelli einstaklinga en allt að tíu milljóna sekt í tilfelli lögaðila.

„Þegar vöruverð er hækkað án þess að innkaupsverð hafi hækkað til muna og án þess að söluaðila sé það nauðsynlegt vegna rekstrarskilyrða má ætla að slík hækkun sé til komin vegna þess að söluaðili verður þess áskynja að eftirspurn eftir vörunni hafi aukist vegna hættuástands. Slíkt á að vera ólöglegt, enda ætti engin að græða á því að hætta steðji að almenningi,“ segir í greinargerðinni.

Alþingi kemur saman til þingfunda á morgun til að ræða fjármálastefnu, ríkisábyrgð til Icelandair, hlutdeildarlán og Covid-mál. Ósennilegt verður því að teljast að tími muni gefast til að mæla fyrir frumvarpinu og enn ósennilegra að það muni renna í gegnum þingið.