Heilbrigðismál eru stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs. Eftir niðurskurð í opinberum framlögum á árunum 2009 til 2012 hafa framlögin aukist stöðugt á hvern íbúa á föstu verðlagi og að meðaltali hraðar frá árinu 2013 en bæði heildarútgjöld og útgjöld til annarra málaflokka.

Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu námu framlög hins opinbera til heilbrigðiskerfisins 7,1% árið 2014. Það er í meðallagi í samanburði við þjóðir þar sem heilbrigð­ isþjónusta er aðgengileg öllum. Væru allir þjóðfélags­ þegnar á sama aldri væru útgjöldin einna hæst hér á landi, eða 9%. Alls renna tæplega 165 milljarðar króna úr ríkissjóði til heilbrigðismála í fjárlögum 2016. Að auki hefur OECD ítrekað bent á að sjúkrahúskerfið á Íslandi sé mjög dýrt miðað við heildarútgjöldin.

Í ljósi þessara talna vekur einkum tvennt athygli. Annars vegar virðast flestir sammála um að „fjárskortur“ hái heilbrigðiskerfinu. Hins vegar setja alvarleg vandamál svip á heilbrigðiskerfið, auk lengri tíma úrlausnarefna. Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins (SA) fjallaði ítarlega um þessi vandamál í greiningu sem hún birti í september síðastliðinn.

Endurnýjun er lítil í heilsugæslu; skortur er á læknum og spekileki er umtalsverður. Heilbrigðisþjónustan er fyrst og fremst þekkingariðnaður og mannauður mesta verðmæti hennar. Því er hætta á að þekking tapist og bæði alþjóðleg samkeppnishæfni og gæði þjónustunnar hljóti skaða af. Biðlistar lengjast, fjöldi hjúkrunarrýma dregst aftur úr. Spítalar eiga í erfiðleikum með að útskrifa sjúklinga og aðbúnaður á Landspítalanum er ófullnægjandi. Þjóðin er síðan að eldast hratt og offituvandamál færast í vöxt.

Að óbreyttu stefnir í að fjármagnseftirspurn, opinber framlög og heilbrigðiskostnaður sjúklinga og samfélagsins muni stóraukast á næstu árum. Eins og kemur fram í greiningu SA, gæti heilbrigðiskostnaður tvöfaldast og meira en það fram til 2060 og numið allt að 16% af VLF. Framlag hins opinbera gæti numið ríflega 40% af heildarskatttekjum árið 2060.

Áleitnar spurningar vakna um stöðu heilbrigðiskerfisins og framtíð þess. Er ríkið að hámarka arðsemi af fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu eða er það að sólunda skattfé? Er hlutdeild hins opinbera í heilbrigðisþjónustu of stór? Er öðru rekstrarformi betur gefið að tryggja hagkvæmni og þjónustugæði? Hver er reynsla nágrannaþjóða Íslands af sambærilegum viðfangsefnum?

Til að varpa ljósi á þessar og aðrar spurningar ræddi Við­skiptablaðið við dr. Stefán E. Matthíasson, skurðlækni, formann Samtaka heilbrigðisfyrirtækja og stjórnarformann Lækningar og Skurðstofunnar ehf., og Jón Gauta Jónsson, framkvæmdastjóra Domus Medica. Samtök heilbrigðisfyrirtækja eru hagsmunasamtök sjálfstætt starfandi fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og eru í Samtökum verslunar og þjónustu (SVÞ) auk SA.

Neytendasjónarmiðið í forgrunni

Í fyrrnefndri greiningu benti SA á þrjár leiðir til að mæta fjármagnseftirspurninni næstu árin: hækka skatta, seilast dýpra í vasa sjúklinga eða auka skilvirkni og hagkvæma nýtingu fjármuna. Skattbyrði hér er einna hæst meðal OECD ríkja og svigrúm til að hækka skatta er afar takmarkað. Krafa samfélagsins er að draga úr greiðsluþátttöku frekar en að auka hana. Huga þurfi að því hverjir nýta fjármagnið og veita þjónustuna.

„Við tölum fyrir fjölbreytileika meðal þjónustuaðila,“ segir Stef­án. Fjölbreyttara rekstrarform í heilbrigðisþjónustu, með auknum heimildum til einkareksturs, í formi þjónustusamnings Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) og einkaaðila, býður upp á aukna samkeppni meðal þjónustuaðila.

Samkeppni í þjónustu við sjúklinga og hagnaðarsjónarmið í rekstri veita rekstraraðilum að­hald, lágmarka kostnað og há­marka gæði þjónustunnar. Fjölbreytileiki í heilbrigðisþjónustu skapar fleiri kosti fyrir sjúklinga. Einkarekstur tryggir enn fremur jafnt aðgengi að heilbrigðis­þjónustu líkt og um ríkisrekstur væri að ræða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .