Á kynningarfundi með markaðsaðilum í morgun upplýsti Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings banka, að félagið hefði áhuga á að auka umsvif sín í Finnlandi. Einnig kom fram að FIH, sem Kaupþing banki keypti í fyrra, hefði verið að taka þátt í sínu fyrsta verkefni í Svíþjóð og sagðist Hreiðar Már vænta fleiri verkefna hjá bankanum utan Danmerkur.

Einnig kom fram að innri vöxtur Kaupþings banka hefði verið mjög góður í Lúxemborg sem forstjórinn sagðist vera mjög ánægður með. Sömuleiðis kom fram hjá honum að verkefnastaða bankans væri mjög góð um þessar mundir. "Við ætlum að halda áfram að vaxa en ekki á kostnað arðseminnar," sagði Hreiðar Már.