Mikið hefur verið rætt um mikilvægi þess að bæta aðgengi að hverskyns sérfræðiþjónustu víðs vegar um landið. Í stað þess að bíða eftir úrbótum frá hinu opinbera, hefur íslenska sprotafyrirtækið Kara sett sér það markmið að bæta aðgengi að sérfræðingum á sviði sálfræði og talmeinafræði með hugbúnaðarlausn.

Tilraunaverkefni á Vestfjörðum

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir er stofnandi Köru, en hún segir allt hafa byrjað með tilraunaverkefni á Vestfjörðum. „Við byrjuðum með lítið tilraunaverkefni á Patreksfirði og Bíldudal, en þá vorum við að prufa fjarþjónustu á sviði talmeinafræði. Verkefnið vakti svo mikla ánægju, að við ákváðum að búa til hugbúnað fyrir sérfræðinga.“

Hugbúnaðurinn sem um ræðir, er því samkvæmt Þorbjörgu einhverskonar markaðstorg, þar sem sérfræðingar geta veitt þjónustu sína í gegnum netið. „Við viljum búa til alvöru tengingu milli fólks og því er þetta hugsað sem ákveðið markaðstorg fyrir sérfræðinga. Það er í raun afar óraunhæft að hægt sé að ráða sérfræðinga inn í hvaða einasta skóla sem er á landinu, með Köru ætti þó að vera hægt að nálgast allskyns þjónustu, hvort sem hún er á sviði sálfræði eða bara stoðkennslu.“

Fyrsta stóra samstarfið

Nýlega gerði fyrirtækið samning við Tölum saman ehf., sem er fyrirtæki sem býður upp á greiningu, ráðgjöf og sálfræðilega meðferð. Fyrirtækið verður því í raun fyrsti viðskiptavinurinn sem mun alfarið einbeita sér að þjónustu á þessu rafræna formi, en Tölum saman ehf. er systurfélag Kvíðameðferðarstöðvarinnar ehf.

Þar sem hugbúnaðurinn er sérhannaður fyrir sérfræðinga, hentaði hann Tölum saman ehf. einstaklega vel. Mikið er lagt upp úr öryggi, en hugbúnaðurinn á einnig að taka mið af ólíkum þörfum sérfræðinga, sem vilja geta veitt þjónustu á misjöfnum sviðum.

Góðir hlutir gerast hægt

Fyrir ári hlaut fyrirtækið styrk frá tækniþróunarsjóði og hefur því gengið vel að þróa vöruna og að koma henni af stað. Þorbjörg segir teymið hafa stækkað smátt og smátt, en í dag eru fimm tölvunarfræðingar og fjórir talmeinafræðingar sem koma að þróuninni.

Viðskiptamódelið er í raun afar einfalt, en það er sett upp sem hefðbundið markaðstorg. Sérfræðingarnir setja sína eigin verðskrá og viðskiptavinir geta pantað tíma og greitt allt á netinu.

Þorbjörg segir góða hluti þá einnig gerast hægt. „Góðir hlutir gerast hægt, en mantran okkar er að bæta aðgengi allra sem þurfa á þessari þjónustu að halda. Landsbyggðin verður til að mynda oft eftir, en við viljum bæta úr því. Annars stefnum við auðvitað á það að taka þetta út fyrir landsteinana einn daginn.“