Heimavellir voru stofnaðir árið 2013 og eru nú orðnir eitt stærsta leigufélag landsins. Félagið á nú um 550 íbúðir, en fyrir liggja samningar um kaup á annað hundrað íbúða til viðbótar. Því mun félagið eiga minnst 700-800 íbúðir á næstu misserum og hyggst stækka áfram. Til samanburðar er húsnæðissamvinnufélagið Búseti með rúmlega 700 íbúðir á sínum snærum og Almenna leigufélagið með um 500 íbúðir.

Heimavellir hyggjast kaupa um þriðjung þeirra fasteigna sem Íbúðalánasjóður auglýsti nýlega til sölu. Þá mun félagið gera tilboð í leigufélagið Klett, sem Íbúðalánasjóður er með í söluferli. Heimavellir eru í dreifðu eignarhaldi ýmissa fjárfesta og félaga en stærstu einstöku eigendurnir eru Stálskip og Sjóvá. Félagið hefur nýlokið 1.600 milljóna króna hlutafjáraukningu, en eignarhald félagsins breyttist ekki við hlutafjáraukninguna.

Sturla Sighvatsson, framkvæmdastjóri Heimavalla, segir að 20% vöxtur hafi verið milli ársfjórðunga hjá félaginu. Ætla megi að efnahagsreikningur þess sé um 20 milljarðar króna að stærð um þessar mundir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

Leiðrétting: Í Viðskiptablaðinu í dag var rangt farið með nafn Sturlu. Beðist er velvirðingar á mistökunum.