Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa að nýju lagt fram tillögu um uppbyggingu vegar um Kjöl. Hugmyndin er sú að einkaaðilum verði falin uppbygging og endurnýjun núverandi Kjalvegar sem ferðamannavegar. Í greinargerð tillögunnar segir að framkvæmdin muni því ekki hafa áhrif á forgangsröðun samgönguáætlunar.

Þingmennirnir eru þeir Njáll Trausti Friðbersson, Vilhjálmur Árnason og Haraldur Benediktsson.

Í greinargerðinni segir einnig að mörg rök hnígi að því að endurbæta vegarkaflann. „Má þar nefna öryggissjónarmið, byggðasjónarmið og sjónarmið um umhverfisvernd. Þá hafa Samtök ferðaþjónustunnar lýst sárum vonbrigðum með að vegarkaflinn hafi ekki fengið brautargengi í síðustu samgönguáætlun og bent á mikilvægi þess að vegasamgöngur milli landshluta verði bættar, ekki síst vegna stóraukins ferðamannastraums sl. ára. Það verður að teljast fullkannað að samgöngubætur hafa jákvæð áhrif á öryggi, nærsamfélag og efnahag.”

Þá segir að mikil rannsóknarvinna hafi nú þegar verið unnin af hálfu einkaaðila og Vegagerðarinnar um áhrif bættra samgangna um hálendið.