Þingmenn fjögurra flokka hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið þar sem lagt er til að útvarpsgjaldið fari ekki lækkandi á árunum 2015 og 2016. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, en meðflutningsmenn eru Birgitta Jónsdóttir frá Pírötum, Guðmundur Steingrímsson frá Bjartri framtíð og Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.

Samkvæmt frumvarpinu er ráðgert að útvarpsgjaldið haldist óbreytt 19.400 kr. og fari ekki lækkandi á árunum 2015 og 2016 eins og kveðið sé á um í núgildandi lögum. Eru þannig lagðar til breytingar þar sem fellt er brott bráðabirgðaákvæði þess efnis að lækka gjaldið í 17.800 kr. á árinu 2015 á hvern einstakling og lögaðila. Einnig er gert ráð fyrir að gjaldið haldist óbreytt árið 2016, en verði ekki lækkað í 16.400 kr. eins og ráðgert er.

Segjast flutningsmennirnir leggja fram frumvarpið með það að markmiði að bregðast við erfiðri fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins. Ljóst sé að tekjur þess dugi ekki til að standa undir rekstri stofnunarinnar eins og hún sé núna þrátt fyrir miklar og sársaukafullar sparnaðaraðgerðir undanfarin ár. Segja þeir að frekari niðurskurður myndi bitna á kjarnastarfsemi Ríkisútvarpsins og gera því ókleift að sinna öllum þeim hlutverkum sem því eru ætluð samkvæmt lögum.