Tillögur sem kynntar voru í gær á hinum svokallaða Samráðsvettvangi um aukna hagsæld á Íslandi miða meðal annars að því að fækka framhaldsskólum hér á landi úr 33 í 8. Þetta er eitt fjögurra sameiningarverkefna sem eru tiltekin í tillögum hópsins sem ráðast mætti í strax með miklum ávinningi.

Hin þrjú sameiningarverkefnin snúa að sýslumannsembættum en þar er lagt til að þeim verði fækkað úr 26 í 1. Lagt er til að löggæslustofnunum verði fækkað úr 16 í 1 og að heilbrigðisstofnunum verði fækkað úr 16 í 7. Með þessum breytingum ætti samkvæmt skýrslunni sem kynnt var í gær að ná fram 2,3% framleiðniaukningu hjá ríkinu.

Komið er inn á fleiri mögulegar breytingar á menntakerfi landsins en lagt er til að námsárum í grunnskóla verði fækkað og hlutfall kennslu hjá kennurum hækkað. Nota mætti hluta af framleiðniaukningu við þessar aðgerðir til að hækka laun kennara.