Tóbaksrisinn Philip Morris sem meðal annars framleiðir Marlboro sígarettur, hefur sent frá sér auglýsingu í nokkrum breskum dagblöðum þar sem félagið segir metnað sinn liggja í því að hætta að selja sígarettur í Bretlandi að því er kemur fram á vef BBC .

Auglýsingaherferðin er hluti af átaki félagsins til þess að ná reyklausri framtíð. Samtök sem berjast gegn reykingum þar í landi segja þó auglýsingaherferðina vera markaðsbrellu.

Philip Morris hefur einnig skrifað Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, bréf þar sem óskað er eftir leyfi til þess að prenta upplýsingar um hvernig hægt sé að hætta að reykja eða skipta í aðrar nikótínvörur á sígarettupakka sína.