Í tilefni af því að í dag er nákvæmlega ár þar til alþingiskosningar þurfa í síðasta lagi að fara fram hefur Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) gert Sjónlistarmiðstöðinni á Akureyri tilboð í plastmál sem miðstöðin keypti nýlega og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hafði drukkið úr.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SUS en tilboðið hljómar upp á 210 þúsund krónur, sem er tvöföld sú fjárhæð sem Sjónlistamiðstöðin greiddi fyrir það, og gildir tilboðið til kl. 16 á mánudaginn.

„SUS telur að málið hafi mikið menningarlegt og sögulegt gildi sem eina málið sem forsætisráðherra, í verstu ríkisstjórn sögunnar, hefur klárað,“ segir í tilkynningunni frá SUS.

„Sem dæmi um mál sem forsætisráðherra hefur ekki klárað má nefna fyrirheit um lausn á skuldavanda heimilanna og blessunarlega hefur henni ekki tekist að rústa fiskveiðistjórnkerfinu og stjórnarskránni. Ekkert af þessu hefur henni tekist þótt hún hafi haft til þess rúm þrjú ár.“

Þá kemur fram að SUS hefur þegar fjármagnað kaupin, náist samningar við Sjónlistamiðstöðina, með framlögum frá félagsmönnum og öðrum velunnurum SUS.