Á nýrri heimasíðu flugfélagsins Play sem boðað er af ýmsum fyrrum starfsfólki Wow air, FlyPlay.com , er auglyst eftir fólki í ýmis störf en þemað í þeim öllum er að leitað sé að skemmtilegu fólki og brosandi flugliðum, sem og leikfélögum, í bæði dagvinnu og kvöld- og helgarvinnu.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um verður félagið sem haft hefur undirbúningsnafnið WAB air, fengið nafnið Play, og segjast forsvarsmenn félagsins að fjármögnun sé lokið þar sem 20% af fjármögnun félagsins komi frá innlendum aðilum og 80% frá erlendum aðilum.

Meðal starfa sem auglýst er eftir má nefna hefðbundin störf eins og flugliðar, flugmenn, forstöðumaður fjármáladeildar, forstöðumaður sölu- og markaðsdeildar ásamt flugumsjón, gjaldkera, bókara auk almennar umsóknar.

En síðan koma einnig óhefðbundnari titlar og lýsingar af heimasíðu félagsins, þar sem m.a. er beðið um orðheppna textasmiði eð ægivaldi á ensku og íslensku, orkubolta fyrir markaðsmálin, skipulögðum þúsundþjalasmið, fólk með sannfæringarkraft, greinanda sem elskar tölur og skýrslugerð auk jákvæðra þjónustufulltrúa sem kallaðir eru leikfélagar á íslensku síðunni, en ekki virðist samsvarandi enskumælandi ráðningarsíða.

Hér má sjá nokkur dæmi:

  • orðsnillingur

„Við leitum að hugmyndaríkum og orðheppnum textasmiði, með auga fyrir smáatriðum og ægivald yfir íslensku og ensku, til að demba sér í hnitmiðuð og skemmtileg skrif innan sölu og markaðsdeildar“

  • markaðsgúrú

„Við leitum að orkubolta til að sinna markaðsmálum PLAY, lana viðburði, setja samfélagsmiðla reglulega á hliðina og taka virkan þátt í uppbyggingu á öflugum vörumerkjum félagsins“

  • vefmálari

„Hér leitum við að þúsundþjalasmið, skipulögðum og metnaðarfullum til að sinna öllu sem viðkemur vefnum, sjá um ritstjórn og bera ábyrgð á textagerð“

  • söluséní

„Áttu auðvelt með að sannfæra fólk? Við leitum að hugmyndaríkum og söludrifnum einstaklingi með sérlega góða skipulagshæfileika í starf sölusérfræðing“

  • leikfélagar

„Play leitar að jákvæðum þjónustufulltrúum til að ræða við viðskiptavini á samfélagsmiðlum, í pósti og netspjaldi. Bæði í dagvinnu og eins í hlutastörf á kvöld- og helgarvaktir“

  • talnaglöggvari

„Við leitum að framúrskarandi greinanda sem elskar tölur og skýrslugerð. Viðkomandi gegnir lykilhlutverki í tekju- og kostnaðarahaldsteymi PLAY og sinnir bæði greiningum og innleiðingu viðskiptagreindar“