Landsbankinn vill lengja í 300 milljarða skuldabréfi við gamla Landsbankann um tólf ár og greiða það upp árið 2030 í stað 2018. RÚV rifjaði upp í gær í tengslum við fund slitastjórnar gamla Landsbankans með kröfuhöfum, að Seðlabankinn hafi synjað slitastjórn um undanþágu frá höftunum til þess að greiða kröfuhöfum hluta krafnanna. Eitt af því sem standi í veginum sé skuldabréfið. Landsbankinn hafi sankað að sér gjaldeyri til að eiga fyrir afborgunum á næsta ári. Þessi gjaldeyrissöfnun hafi veikt krónuna og stjórnvöld því haft hug á að lengt verði í bréfinu til að minnka þrýsting á krónuna.

RÚV sagði jafnframt að til að blíðka kröfuhafa bjóðist nýi bankinn til að greiða verulega inn á bréfið nú þegar. Ákveðið hafi verið að forráðamenn gamla bankans ræði tilboðið við stærstu kröfuhafana sem eru breska og hollenska ríkið.