Reitir fasteignafélag lauk á mánudag 68 milljarða króna endurfjármögnun þar sem stærstu lífeyrissjóðir landsins keyptu 31% hlut í fyrirtækinu fyrir tólf milljarða og skuldabréf af fyrirtækinu fyrir 25 milljarða. Félagið hefur næg verkefni framundan og segir Guðjón Auðunsson, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við Markaðinn á Fréttablaðinu að það áformi meðal annars að stækka Kringluna um 20 þúsund fermetra.

„Kringlan er verðmætasta eign Reita og það er til á deiliskipulagi bygging á turni á norðurenda Kringlunnar sem gæti orðið 16 til 21 hæð. Þrjár neðstu hæðir turnsins færu þá undir verslunarrými en hinar undir hótel, skrifstofur eða aðra starfsemi. Síðan myndi Kringlan einnig stækka í átt að Morgunblaðshúsinu. Við munum einblína á þessi verkefni, þú þegar fjármögnuninni er lokið, en engin ákvörðun hefur verið tekin,“ segir Guðjón.