Þýska flugfélagið Lufthansa vill sem fyrst bjóða upp á háhraða nettengingu í öllum Airbus A380 vélum sínum.

Félagið hefur nú þegar fengið fjórar A380 vélar afhentar en á 11 vélar pantaðar, þar af fjórar sem afhentar verða á þessu ári.

Nettenging er nú aðgengileg á efri farrýmum í gegnum kapal en flugvefurinn Flightglobal greindi frá því fyrir skömmu að til stæði að koma upp þráðlausri nettengingu á öllum farrýmum A380 vélanna í samvinnu við Panasonic Avionics.

Á meðan beðið verður eftir þessu býðst farþegum Lufthansa, sem eiga bókað flug í A380 vélum félagsins, að hlaða inn á sérstaka síðu félagsins hvort sem er lestrarefni, þáttum eða bíómyndum. Farþegarnir geta síðan nálgast efnið í fluginu sjálfu í afþreyingarkerfi vélanna.