*

fimmtudagur, 29. október 2020
Innlent 18. október 2015 14:05

Vilja undanþágu frá 150% reglunni

Bæjaryfirvöld í Kópavogi telja að ákvæði í lögum um að sveitarfélög megi ekki skulda meira en 150% af tekjum hamli uppbyggingu á félagslegu húsnæði í bænum.

Trausti Hafliðason
Haraldur Guðjónsson

Kópavogsbær er eitt af þeim sveitarfélögum sem er yfir leyfilegu skuldaviðmiði en samkvæmt sveitarstjórnarlögum mega sveitarfélög ekki skulda meira en 150% af tekjum sínum. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, segir að í dag sé skuldahlutfall bæjarins á bilinu 170 til 180%. Í skýrslu starfshóps Kópavogsbæjar um stöðu húsnæðismarkaðarins er mælst til þess að leiguhúsnæði í eigu sveitarfélaga verði undanþegið þessu ákvæði sveitarstjórnarlaga.

„Ákvæðið hamlar því að Kópavogsbær geti farið í uppbyggingu á félagslegu húsnæði þar sem bænum er almennt óheimilt á grundvelli laganna að skuldsetja sig frekar," segir í skýrslunni. Ármann Kr. segir að leiguhúsnæði bæjarins séu einmitt eignir sem hægt sé að breyta í lausafé og því finnist honum undarlegt að skuldir vegna þessara íbúða séu inni í skuldahlutfallinu. Kópavogsbær á í dag 410 félagslegar íbúðir. Hann segist hafa rætt við þingmenn og ráðherra um að breyta þessu.

„Það finnst öllum þetta góð hugmynd en samt hefur ekkert gerst," segir Ármann Kr. „Við erum ekki að leggja þetta til af því við ætlum að fara að byggja svo margar félagslegar íbúðir. Okkur finnst, að með því að hafa þessar skuldir með, sé verið að gefa ranga mynd af skuldastöðu sveitarfélagsins."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.