Magnús Björn Brynjólfsson lögmaður vill láta á það reyna að rifta sölu Hildar Petersen, fyrrverandi stjórnarformanni Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, SPRON, á stofnbréfum sparisjóðsins um mitt ár 2007. Hann krefst þess að hún endurgreiði sér fimm milljónir króna sem hann varði til kaupa á bréfunum á sínum tíma. Niðurstaða málsins er talin geta skapað fordæmi fyrir aðra sem keyptu stofnbréf í sparisjóðnum á sínum tíma.

Alþjóðaráðstefna FKA Hilton - Fólk 1
Alþjóðaráðstefna FKA Hilton - Fólk 1
© BIG (VB MYND/BIG)

Málið er á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur á mánudag í næstu viku. Magnús stefndi sjálfur málinu. Ekki liggur þó fyrir hvort hann flytji það sjálfur.

Forsaga málsins er sú að tekin var ákvörðun um það í júlí árið 2007 að skrá SPRON á hlutabréfamarkað. Frá þeim tíma og fram undir miðjan ágúst sama ár opnaðist svokallaður „gluggi“ sem heimilaði viðskipti með stofnbréf í sparisjóðnum áður en honum var breytt í hlutafélag. Í þessum glugga urðu gríðarleg viðskipti og seldu m.a. margir eigendur stofnbréfaeigenda hluti sína. Nýir fjárfestar keyptu bréfin.

Stjórnarmenn seldu kortéri fyrir skráningu á markað

Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um söluna á stofnbréfunum. Þar kom m.a. fram að ári síðar, eftir skráningu SPRON á hlutabréfamarkað og viðvarandi gengisfalls þeirra, fóru margir þeirra sem höfðu keypt stofnbréfin að grafast fyrir um það hverju það voru sem höfðu selt þau. Eftir málaferli þar sem þrýst var á um að upplýst var hverjir höfðu selt bréf kom í ljós að 60% stofnbréfanna höfðu verið í eigu stjórnarmenn í SPRON og maka þeirra.Öll bjuggu þau yfir innherjaupplýsingum og seldu bréfin fyrir háar fjárhæðir.

Guðmundur Hauksson
Guðmundur Hauksson
© BIG (VB MYND/BIG)

Gunnar Þór Gíslason, sem sæti átti í stjórn SPRON árið 2007, og félag hans Sundagarðar, seldu stofnbréf fyrir um tvo milljarða króna að markaðsvirði. Hildur Petersen, þá stjórnarformaður, og Ásgeir Baldursson, seldu jafnframt stofnbréf fyrir tugi milljóna króna ásamt því sem eiginkona Guðmundar Haukssonar, þáverandi sparisjóðsstjóra seldi stofnbréf fyrir háar fjárhæðir.

Hildur sagði í samtali við fréttastofu Vísis í febrúar árið 2008 að fyrir skráningu SPRON á markað hafi verið settar reglur um stofnfjármarkað sem Fjármálaeftirlitið hafi blessað og fyrirtækið farið eftir í einu og öllu. Það væri regluvörður innan SPRON sem hafi samþykkt öll viðskipti innherja hjá sparisjóðnum.

Hildur var spurð að því í sama viðtali hvort hún hefði ekki haft trú á SPRON. Það sagðist hún hafa haft. Hú sagði orðrétt: „Kannski vildi ég eiga minni hlut í því af því að þessi hlutur hafði vaxið mikið. Gengið hafði hækkað mikið.“

Hlutabréf Spron voru skráð á markað haustið 2007 á genginu 16,8 krónur á hlut. Það féll viðstöðulítið frá upphafi og endaði saga sparisjóðsins með þeim hætti að Fjármálaeftirlitið tók hann yfir í mars árið 2009.

Telur að innherjareglur hafi verið brotnar

Magnús kærði sölu stjórnarmanna SPRON á stofnbréfunum til ríkissaksóknara fyrir um tveimur árum á þeim grundvelli að með sölunni hafi verið um fjársvik að ræða. Því var hins vegar vísað frá og málið ekki rannsakað frekar. Málið nú hvílir á því að með sölunni hafi innherjareglur verið brotnar.

Magnús vildi ekki tjá sig opinberlega um málið að sinni þegar eftir því var leitað.

Spron
Spron
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)