Í september á þessu ári munu Skotar ganga til kosninga um það hvort þeir vilji slíta sig frá breska konungsveldinu og verða sjálfstæð þjóð. Breska ríkinu hugnast sú hugmynd illa.

„Þetta er mjög stór og söguleg ákvörðun og mun hafa áhrif um ókomna tíð. Hana á því ekki að taka léttúðlega og hún verður að byggja á atriðum sem skipta máli. Og við erum að tala um upplausn breska konungsveldisins ef Skotland verður sjálfstætt, og bæði Bretland og Skotland yrðu síðri fyrir vikið,“ segir Stuart Gill, sendiherra Breta á Íslandi.

„Það er ekkert leyndarmál að breska ríkisstjórnin vill ekki að Skotland verði sjálfstætt. Það er okkar afstaða að Skotlandi mun vegna betur sem hluti af Bretlandi og að hagsmunir Bretlands felist einnig í því að Skotland sé hluti af því. Þetta er algjörlega skýrt af okkar hálfu og ég vonast til þess að það verði niðurstaðan í september,“ segir Gill.

Rætt er við Stuart Gill í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .